Þjónusta við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi

Hefur þú orðið fyrir ofbeldi?

Sigurhæðir bjóða konum 18 ára og eldri samhæfða ráðgjöf, stuðning og meðferð á þeirra forsendum.

Í boði er einstaklings- og hópmeðferð ásamt sérhæfðri áfallameðferð. Þá er lögregla til staðar innan Sigurhæða til að veita ráðgjöf og upplýsingar og sömuleiðis er lögfræðileg ráðgjöf í boði. Sérstök fræðsla um réttindi innflytjendakvenna er einnig fáanleg, einnig með túlkaþjónustu.

Konur búsettar á Suðurlandi og aðstandendur þeirra geta komið, hringt og pantað viðtöl til að fá stuðning, ráðgjöf og upplýsingar.

VALDEFLING

VON

VALDEFLING – VON –

„Meðferðin hjá Sigurhæðum snýst ekki um hvað sé að þér, heldur spyrjum við: Hvað kom fyrir þig?“

— Elísabet Lorange, meðferðarstýra Sigurhæða

Hvað er ofbeldi?

Líkamlegt ofbeldi

Til dæmis að kýla, slá, sparka, hrinda, taka kyrkingartaki, halda með líkamlegum yfirburðum.

Mismunun

Til dæmis ofbeldi og áreitni sem beinist að uppruna, kyni, kynþætti, kynhneigð, kynvitund, eða fötlunum og skerðingu.

Efnisleg misnotkun

Til dæmis þegar eignarréttur er ekki virtur, hlutir eyðilagðir.

Andlegt ofbeldi

Þegar einhver hótar þér, gerir lítið úr þér eða lætur þér líða illa með orðum og/eða hegðun, t.d. dæmis með því að hóta, skamma, ógna, niðurlægja, stjórna, einangra og barngera.

Vanræksla

Til dæmis þegar aðstoð er haldið frá viðkomandi, lyfjagjöf ekki sinnt sem skyldi, umönnun ábótavant.

Limlesting á kynfærum kvenna

Er þegar ytri kynfæri kvenna eða stúlkna eru fjarlægð að hluta eða öllu leyti.

Kynferðisleg misnotkun

Til dæmis nauðgun, sifjaspell eða kynferðisleg áreitni. Þegar fatlað fólk á í hlut á þetta einnig við um athafnir sem fatlaður einstaklingur hefur ekki eða gæti ekki samþykkt vegna skerðingar eða var þvingaður til að samþykkja.

Eltihrelling

Til dæmis að hóta, elta manneskju eða sitja fyrir henni gegn vilja hennar. Hrelliklám eru hótanir um að birta t.d. nektarmyndir á netinu.

Þvingað hjónaband

Er hjónaband sem annar eða báðir aðilar eru þvingaðir til að ganga í.

Stafrænt ofbeldi

Til dæmis þegar tækni, s.s. sími, tölvupóstur eða samfélagsmiðlar, er notuð til að beita ofbeldi. Það felst t.d. í að senda stöðugt skilaboð í síma, birta nektarmyndir af við komandi í hennar/hans óþökk eða að gerandi sendir óumbeðnar nektarmyndir af sér.

Fjárhagsleg misnotkun

Til dæmis þegar fjármunum haldið frá fólki eða notaðir í ósamræmi við vilja einstaklings.

Heiðurstengt ofbeldi

Er ofbeldi sem er framkvæmt í nafni „heiðurs“.

Við erum hér

Sigurhæðir eru að Heiðmörk 1a, Selfossi. Komið er að húsinu frá Árveginum á móti nýja hjúkrunarheimilinu Móberg.

Mynd nr 3 Hönd fyrir andliti.jpeg

Við erum hér fyrir þig

Fullkominn
trúnaður ríkir

Allir sem koma að starfsemi Sigurhæða undirrita formlegt þagnarheit.

Þjónusta

Opnunartímar

Þriðjudagar

10:00 - 17:00

Fimmtudagar

13:00 - 19:00

Föstudagar

10:00 - 17:00

Samstarfsaðilar

Sigurhæðir eru í samstarfi við ýmis félagasamtök á landsvísu og stofnanir með þeim tilgangi að gera þjónustuna betri og víðtækari. Verkefnisstjórn er skipuð af samstarfsaðilum á Suðurlandi og hefur það hlutverk að standa vörð um þjónustuna og halda utanum gæði og virkni verklags og verkferla.

 
  • Hildur Jónsdóttir

    VERKEFNASTJÓRI

    Hildur er með BA gráðu í frétta- og blaðamennsku frá Danmarks Journalisthöjskole og stundaði síðar stjórnsýslufræðum. Hún hefur stýrt fjölda verkefna, innlendra, norrænna og evrópskra. Hún var jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar 1996-2006 og starfaði þar á eftir við jafnréttismál og menningarmál innan félagsmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis um tíu ára skeið. Hildur er fyrrverandi formaður Jafnréttisráðs og sérfræði- og samhæfingarteymis um mansal. Meðal verkefna sem hún hefur stýrt eru Karlar í fæðingarorlofi, Hið gullna jafnvægi (um samhæfingu starfs og einkalífs), Framtíð í nýju landi (meðal innflytjenda) og verkefni um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í fjárlagagerð. Þá var hún formaður og aðalhöfundur Jafnlaunastaðals og sat í verkefnisstjórn Rammáætlunar f. h. forsætisráðuneytis.

  • Elísabet Lorange

    TEYMISSTÝRA

    Elísabet er listmeðferðarfræðingur og kennari að mennt. Hún hefur unnið sem sjálfstætt starfandi listmeðferðarfræðingur sl. 15 ár. Hún hefur sinnt einstaklingum á öllum aldri og vinnur útfrá sálrænni djúpvinnu með áherslu á tengsl og tilfinningalega úrvinnslu. Undanfarin ár hefur Elísabet sérhæft sig í vinnu með fullorðnum og fósturfjölskyldum. Elísabet hefur einnig stýrt námskeiðahaldi og þjónustað stofnanir og samtök á landsvísu eins og barnaverndir, grunnskóla, Rauða krossinn, Ljósið, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis, Sorgarmiðstöðina, Foreldrahús, StarfA (starfsendurhæfing Austurlands), VáVest, Námsflokka Reykjavíkur og Bataskóla Íslands. Elísabet, ásamt Valgerði H. Bjarnadóttur, er stofnandi Draumsögu – náms í draumfræðum.

  • Jóhanna Kristín Jónsdóttir

    SÁLFRÆÐINGUR

    Jóhanna er sálfræðingur, með MA gráðu í menningarstjórnun og hefur sinnt sálfræðiþjónustu í fimmtán ár. Hún hefur lokið sérnámi í Hugrænni atferlismeðferð, alhliða þjálfun í klínískri dáleiðslu og EMDR áfallameðferð. Jóhanna vann lengi á BUGL, sinnti greiningum og meðferð ungmenna og var ráðgefandi fyrir Barnaspítalann. Hún hóf rekstur eigin stofu árið 2011 og er með samstarfssamning við Heilsuvernd og VIRK starfsendurhæfingarsjóð. Jóhanna hefur stundað rannsóknir, haldið námskeið og sinnt fræðslu til fyrirtækja. Hún sinnir meðferð skjólstæðinga sem glíma við depurð, kvíða, örmögnun og afleiðingar áfalla og hefur mikinn áhuga á að leiða manneskjuna í átt að auknum lífsgæðum í lífi og starfi. 

  • Helga Jóna Ósmann Sigurðardóttir

    IÐJUÞJÁLFI OG FJÖLSKYLDUMEÐFERÐARFRÆÐINGUR

    Helga er iðjuþjálfi (BSc) og fjölskyldumeðferðarfræðingur (MA) að mennt. BS ritgerðin hennar fjallaði um Færni fanga og ánægju þeirra við iðju og meistaraverkefnið til fjölskyldumeðferðar um Upplifun, líðan og bjargráð aðstandenda krabbameinsgreinda sem nýta sér þjónustu Ljóssins. Helga Jóna starfaði frá 2003-2017 á BUGL, með börnum og fjölskyldum þeirrra í hinum ýmsum teymum á göngu- og legudeild, almennu teymi, átröskunarteymi og transteymi. Frá byrjun árs 2017 hefur hún verið fastráðin í Ljósinu -endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra. Helga Jóna hefur lokið nokkrum námskeiðum bæði á Íslandi og erlendis í Reynslunámi (Experiential Learning/Adventure Therapy) og hefur m.a. nýtt það nám til viðbótar sinni menntun í námskeiðshald fyrir vinnustaði, stofnanir og samtök, s.s. Sorgarmiðstöðin, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og Regnbogabörn. Helga Jóna sinnir reglulegri endurmenntun. Helga Jóna hefur reynslu af einstaklings-, para- og fjölskylduviðtölum.

  • Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir

    HJÚKRUNARFRÆÐINGUR

    Margrét er hjúkrunarfræðingur, með MS gráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu og diploma í sálgæslu. Margrét hefur starfað lengst af sem hjúkrunarforstjóri á Hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu og ásamt því sinnt tímavinnu á bráðamóttöku LSH og á HSU. Margrét hefur starfað með björgunarsveit í 30 ár og lokið fjölda námskeið í tengslum við sálrænan stuðning og áfallahjálp. Einnig hefur Margrét lokið námskeiðum í djúpslökun og er með kennsluréttindi í Yoga nidra djúpslökun sem reynst hefur mörgum vel við að takast á við streitu og vinna úr áföllum. Margrét starfar í dag sem hjúkrunarfræðingur/hjúkrunarstjóri á heilsugæslu Rangárþings og er sjálfboðaliði í Flugbjörgunarsveitinni á Hellu og í viðbragðshóp Rauðakrossins í sálrænum stuðningi á Suðurlandi. Margrét er systir í Soroptimistaklúbbi Suðurlands.

Sjálfboðaliðar Sigurhæða

Sjálfboðaliðar Sigurhæða koma úr röðum Soroptimistaklúbbs Suðurlands. Þeir sinna móttöku skjólstæðinga og símsvörun og raða niður í viðtöl hjá meðferðaraðilum. Allir sjálfboðaliðar hafa gengið í gegnum ítarlegt undirbúningsnámskeið og þeir undirrita þagnarheit sem gildir þótt látið sé af störfum.

„Nafnið Sigurhæðir á sér sérstakan stað í hjörtum Akureyringa og viljum við sérstaklega óska ykkur til hamingju með það. Við erum þess fullviss að því muni fylgja gæfa og blessun.“

— Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri

Talaðu við okkur, við getum hjálpað!