Hverjar erum við?

Um Sigurhæðir

Soroptimistaklúbbur Suðurlands er frumkvöðull að stofnun Sigurhæða. Soroptimistar eru aldargömul alþjóðleg samtök kvenna sem vinna að jafnrétti, mannréttindum, bættri stöðu kvenna og sjálfbærri þróun í heimabyggð, heimalandi og á alþjóðavettvangi. Fyrsti íslenski klúbburinn var stofnaður 1959 og eru alls 19 klúbbar núna starfandi um land allt.


Samstarfsaðilar Soroptimistaklúbbs Suðurlands í Sigurhæðum eru alls 22. Þeir eru öll sunnlensku sveitarfélögin fimmtán, þ.e. Árborg, sveitarfélög í Árnesþingi og Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu, Hornafjörður og Vestmannaeyjar, Lögreglan á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, sýslumannsembættin á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Auk þess er ríkulegt samstarf við Stígamót, Kvennaathvarfið, Drekaslóð og Bjarkarhlíð sem öll veita þolendum kynbundins ofbeldis þjónustu og stuðning.

Sigurhæðir hefðu aldrei orðið að veruleika nema fyrir víðtækan stuðning frá viðkomandi ráðuneytum, ýmsum sjóðum, sunnlenskum sveitarfélögum, Soroptimistasambandi Íslands og klúbbum innan þess sem og frá fyrirtækjum og einstaklingum á Suðurlandi og víðar. Eru öllum stuðningsaðilum færðar innilegar þakkir.

Í nóvember 2021 samþykkti ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga að gera Sigurhæðir að áhersluverkefni í Sóknaráætlun fyrir Suðurland og mun verkefnið hafa þá stöðu til nokkurra ára.

Sigurhæðir eru fyrsta samhæfða þjónustan við þolendur kynbundins ofbeldis í sunnlensku nærsamfélagi.