Málþing 2022

Málþingið FRAM ÚR BJÖRTUSTU VONUM var haldið á Hótel Selfossi 19. maí 2022 að viðstöddum tæplega 70 velunnurum og samstarfsaðilum í Sigurhæðum. Tilefnið var að Sigurhæðir höfðu lokið fyrsta starfsári sínu og matsskýrsla Háskóla Íslands á undirbúningi, starfi og árangri SIigurhæða fyrsta árið var nýlega komin út.


Jóna Ingvarsdóttir, formaður Soroptimistaklúbbs Suðurlands, setti málþingið. Hún fór yfir markmið Soroptimista um allan heim sem lúta að valdeflingu kvenna og kvað Sigurhæðaverkefnið meðal þeirra stærstu sem Soropotimistar á Íslandi hafa nokkru sinni sinnt.

„Við erum stoltar“, sagði hún og lýsti þar með eindreginni gleði hinna 29 systra sem eru í Suðurlandsklúbbnum yfir Sigurhæðum.

Eliza Reid forsetafrú flutti hvetjandi setningarávarp þar sem hún m.a. fjallaði um  jafnréttisparadísina  Ísland, sem þó á eftir að vinna bug á því mikla meini sem kynbundið ofbeldi er.

Hafdís Karlsdóttir, verðandi forseti Evrópusamtaka Soroptimista ávarpaði málþingið og flutti því kveðjur sunnan úr Evrópu, en Sigurhæðir hafa notið veglegs styrks úr svokölluðum Action Fund, aðgerðasjóði Evrópusambands Soroptimista

Hildur Jónsdóttir, verkefnisstjóri Sigurhæða, rakti feril verkefnisins allt frá 19. maí 2020, nákvæmlega tveimur árum áður, þegar hugmyndinni að stofnun þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi var fyrst hreyft á stjórnarfundi hjá Soroptimistaklúbbi Suðurlands. Hún fjallaði m.a. um tvíþætta sérstöðu Sigurhæða; annars vegar stendur að baki Sigurhæða lang öflugasta og víðtækasta net samstarfsaðila í málaflokknum sem til er á Íslandi, en samstarfsaðilar eru alls 23. Hins vegar er þjónustustig mun hærra en þekkist í öðrum sambærilegum úrræðum á landinu.

Þá var komið að meðferðaraðilum innan Sigurhæða sem fjölluðu um innra starfið. Elísabet Lorange, meðferðarstýra Sigurhæða fjallaði um hugmyndafræði meðferðarinnar og nálgun Sigurhæða bæði í forviðtölum, stuðningsviðtölum og hópastarfi. „Nálgun okkar snýst ekki um hvað er að skjólstæðingunum, heldur hvað hefur komið fyrir þá,“ sagði hún og bætti við að hverri konu væri mætt á hennar forsendum og að hún stjórnaði hraðanum í því ferli sem hún fer í gegnum innan Sigurhæða sjálf.

Jóhanna Kristín Jónsdóttir sálfræðingur og sérfræðingur í EMDR áfallameðferð fjallaði því næst um EMDR meðferðina og þann árangur sem þegar er hægt að mæla eftir aðeins eins árs starf. Ljóst sé að áfallasaga skjólstæðinganna er yfirleitt löng, áföllin samfléttuð hvert öðru og þau eru flókin. Þyngd mála er því talsvert meiri en upphaflega var vænst, og það rímar við það að bæði er hátt hlutfall öryrkja og kvenna á endurhæfingarlífeyri hjá Sigurhæðum og flestar tilvísanir koma frá félagsþjónustu sveitarfélaganna og geðteymi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Kristín Anna Hjálmarsdóttir kynjafræðingur, sem er höfundur matsskýrslu HÍ ásamt Þorgerði Einarsdóttur prófessor við HÍ, kynnti skýrsluna og sagði m.a. við það tækifæri að hennar helsta áhyggjuefni varðandi skýrsluna væri að hún þætti ekki trúverðug, því niðurstöður hennar væru þær langbestu miðað við sambærilegar úttektir á félagslegum úrræðum sem hún hefði ýmist unnið sjálf eða kynnt sér.

Þá var komið að þremur efnismiklum fyrirlestrum um ýmsar hliðar ofbeldis, sem höfðuðu ekki síst til þeirra sem starfa innan Sigurhæða sem annarra gesta á málþinginu. Fyrst flutti Þórður Kristinsson jafnréttisfræðari og kennslustjóri í Kvennaskólanum í Reykjavík fyrirlestur undir heitinu Karlmennska á strandstað. Þar kom fram greining hans á m.a. MeToo umræðu síðustu ára hér á landi. Hún þróaðist frá því að vera sögur fjöldamargra kvenna, oftast nafnlausar, þar sem gerandinn var heldur ekki nafngreindur yfir í frásagnir þar sem ýmsir þolendur stigu fram og nafngreindu oft þekkta einstaklinga í samfélaginu sem gerendur. Hann fjallaði um viðbrögð þeirra og taldi mikið verk vera fyrir höndum í því að vinna úr þessum ofbeldismálum, bæði við sem samfélag og þeir sem eru eða kunna að hafa verið gerendur ofbeldis.

Heimilisfriður er helsta úrræðið sem gerendur geta leitað til eftir hjálp við að takast á við sjálfa sig og ofbeldið sem þeir beita. Mjöll Jónsdóttir, sálfræðingur hjá Heimilisfriði, greindi frá starfinu með gerendum og lýsti á lifandi hátt glímu þeirra við að skilja hvað ofbeldi er, af hverju þeir beita ofbeldi og hvernig þeir geti bundið enda á það. Hún sagði ennfremur að meðferðaraðili getur ekki náð árangri nema með því að láta sér þykja vænt um skjólstæðinga sína, og það væri áskorun sem meðferðaraðilinn þurfi að mæta.

Forvarnarstarf gegn kynferðisofbeldi gegn börnum var umfjöllunarefni Þóru Björnsdóttur, verkefnisstjóra innlendra verkefna hjá Barnaheillum. Undir samheitinu Verndarar barna tók barnaheill við keflinu frá samtökunum Blátt áfram fyrir þremur árum og sinnir færðslustarfi með fullorðna og börnum, 5 til 11 ára sérstaklega þar sem áherslan er á ofbeldi og einelti. Barnaheill reka samskonar verkefni um viða veröld og er öflugur málsvari barna sem eiga undir högg að sækja vegna ofbeldis, eineltis eða vanrækslu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra hélt lokaávarp málþingsins. Hjá honum kom fram ánægja með Sigurhæðir og nálgun þeirra. Hann kvað það eitt af sínum áhersluverkefnum að taka heildstætt á málum frjálsra félagasamtaka sem sinna ýmsum þörfum samfélagsverkefnum í þágu skjólstæðinga með margs konar vanda með það að augnamiði að gera samninga milli ráðuneytisins og þessara samtaka til að tryggja þeim betri rekstrargrundvöll.  Sigurhæðir, sem enn vantar að fjármagna um þriðjung kostnaðaráætlunar ársins 2022, horfir með bjartsýni fram til komandi viðræðna við félagsmálaráðherra.

Video Block
Double-click here to add a video by URL or embed code. Learn more
Previous
Previous

Frá hugmynd til framkvæmdar